2 Kings 2

Þegar Drottinn ætlaði að láta Elía fara til himins í stormviðri, voru þeir Elía og Elísa á leið frá Gilgal. Þá sagði Elía við Elísa: ,,Vertu hér kyrr, því að Drottinn hefir sent mig til Betel.`` En Elísa svaraði: ,,Svo sannarlega sem Drottinn lifir og svo sannarlega sem þú lifir, mun ég eigi við þig skilja.`` Fóru þeir þá ofan til Betel. Spámannasveinar þeir, er voru í Betel, gengu út á móti Elísa og sögðu við hann: ,,Veist þú að Drottinn ætlar í dag að nema herra þinn burt yfir höfði þér?`` Elísa svaraði: ,,Veit ég það líka. Verið hljóðir!`` Þá sagði Elía við hann: ,,Elísa, vertu hér kyrr, því að Drottinn hefir sent mig til Jeríkó.`` Hann svaraði: ,,Svo sannarlega sem Drottinn lifir og svo sannarlega sem þú lifir, mun ég eigi við þig skilja.`` Fóru þeir þá til Jeríkó. Þá gengu spámannasveinar þeir, er voru í Jeríkó, til Elísa og sögðu við hann: ,,Veist þú að Drottinn ætlar í dag að nema herra þinn burt yfir höfði þér?`` Elísa svaraði: ,,Veit ég það líka. Verið hljóðir!`` Þá sagði Elía við hann: ,,Vertu hér kyrr, því að Drottinn hefir sent mig til Jórdanar.`` Hann svaraði: ,,Svo sannarlega sem Drottinn lifir og svo sannarlega sem þú lifir, mun ég eigi við þig skilja.`` Fóru þeir þá báðir saman. En fimmtíu manns af spámannasveinunum fóru og námu staðar til hliðar í nokkurri fjarlægð, en hinir báðir gengu að Jórdan. Þá tók Elía skikkju sína, braut hana saman og sló á vatnið. Skipti það sér þá til beggja hliða, en þeir gengu báðir yfir um á þurru. En er þeir voru komnir yfir um, sagði Elía við Elísa: ,,Bið þú mig einhvers, er ég megi veita þér, áður en ég verð numinn burt frá þér.`` Elísa svaraði: ,,Mættu mér þá hlotnast tveir hlutar af andagift þinni.`` 10 Þá mælti Elía: ,,Til mikils hefir þú mælst. En ef þú sér mig, er ég verð numinn burt frá þér, þá mun þér veitast það, ella eigi.`` 11 En er þeir héldu áfram og voru að tala saman, þá kom allt í einu eldlegur vagn og eldlegir hestar og skildu þá að, og Elía fór til himins í stormviðri. 12 Og er Elísa sá það, kallaði hann: ,,Faðir minn, faðir minn, þú Ísraels vagn og riddarar!`` Og hann sá hann ekki framar. Þá þreif hann í klæði sín og reif þau sundur í tvo hluti. 13 Síðan tók hann upp skikkju Elía, er fallið hafði af honum, sneri við og gekk niður á Jórdanbakka, 14 tók skikkju Elía, er fallið hafði af honum, sló á vatnið og sagði: ,,Hvar er nú Drottinn, Guð Elía?`` En er hann sló á vatnið, skipti það sér til beggja hliða, en Elísa gekk yfir um. 15 Þegar spámannasveinarnir í Jeríkó sáu það hinumegin, sögðu þeir: ,,Andi Elía hvílir yfir Elísa.`` Gengu þeir í móti honum, lutu til jarðar fyrir honum 16 og sögðu við hann: ,,Sjá, hér eru fimmtíu röskir menn með þjónum þínum. Lát þá fara og leita að herra þínum, ef andi Drottins kynni að hafa hrifið hann og varpað honum á eitthvert fjallið eða ofan í einhvern dalinn.`` En Elísa mælti: ,,Eigi skuluð þér senda þá.`` 17 En er þeir lögðu mjög að honum, mælti hann: ,,Sendið þér þá.`` Sendu þeir þá fimmtíu manns, og leituðu þeir hans í þrjá daga, en fundu hann ekki. 18 Sneru þeir þá aftur til Elísa, og var hann þá enn í Jeríkó. Þá sagði hann við þá: ,,Sagði ég yður ekki, að þér skylduð ekki fara?`` 19 Borgarmenn Jeríkó sögðu við Elísa: ,,Borg þessi liggur að vísu vel, eins og þú sjálfur sérð, herra, en vatnið er vont, og landið veldur því, að konur fæða fyrir tímann.`` 20 Hann sagði við þá: ,,Færið mér nýja skál og látið í hana salt.`` Þeir gjörðu svo. 21 Og hann gekk út að uppsprettu vatnsins, kastaði saltinu í hana og mælti: ,,Svo segir Drottinn: Ég gjöri vatn þetta heilnæmt. Upp frá þessu skal það eigi valda dauða né ótímaburði.`` 22 Þá varð vatnið heilnæmt samkvæmt orði Elísa, því er hann hafði talað, og er svo enn í dag. 23 Þaðan hélt hann til Betel. Og er hann gekk upp veginn, gengu smásveinar út úr borginni, hæddu hann og kölluðu til hans: ,,Kom hingað, skalli! Kom hingað, skalli!`` 24 Sneri hann sér þá við, og er hann sá þá, formælti hann þeim í nafni Drottins. Þá komu tvær birnur út úr skóginum og rifu í sundur fjörutíu og tvo af drengjunum. 25 Þaðan fór hann til Karmelfjalls og sneri þaðan aftur til Samaríu.
Copyright information for Icelandic