‏ Genesis 40

1Eftir þetta varð sá atburður, að byrlari konungsins í Egyptalandi og bakarinn brutu á móti herra sínum, Egyptalandskonungi. 2Og Faraó reiddist báðum hirðmönnum sínum, yfirbyrlaranum og yfirbakaranum, 3og lét setja þá í varðhald í húsi lífvarðarforingjans, í myrkvastofuna, þar sem Jósef var í haldi. 4Og lífvarðarforinginn setti Jósef til þess að þjóna þeim, og voru þeir nú um hríð í varðhaldi. 5Þá dreymdi þá báða draum, byrlara og bakara konungsins í Egyptalandi, sem haldnir voru í myrkvastofunni, sinn drauminn hvorn sömu nóttina, og hafði hvor draumurinn sína þýðingu. 6Og er Jósef kom inn til þeirra um morguninn, sá hann að þeir voru óglaðir. 7Spurði hann þá hirðmenn Faraós, sem voru með honum í varðhaldi í húsi húsbónda hans, og mælti: ,,Hvers vegna eruð þið svo daprir í bragði í dag?`` 8En þeir svöruðu honum: ,,Okkur hefir dreymt draum, og hér er enginn, sem geti ráðið hann.`` Þá sagði Jósef við þá: ,,Er það ekki Guðs að ráða drauma? Segið mér þó.`` 9Þá sagði yfirbyrlarinn Jósef draum sinn og mælti við hann: ,,Mér þótti í svefninum sem vínviður stæði fyrir framan mig. 10Á vínviðinum voru þrjár greinar, og jafnskjótt sem hann skaut frjóöngum, spruttu blóm hans út og klasar hans báru fullvaxin vínber. 11En ég hélt á bikar Faraós í hendinni og tók vínberin og sprengdi þau í bikar Faraós og rétti svo bikarinn að Faraó.`` 12Þá sagði Jósef við hann: ,,Ráðning draumsins er þessi: Þrjár vínviðargreinarnar merkja þrjá daga. 13Að þrem dögum liðnum mun Faraó hefja höfuð þitt og setja þig aftur inn í embætti þitt. Munt þú þá rétta Faraó bikarinn, eins og áður var venja, er þú varst byrlari hans. 14En minnstu mín, er þér gengur í vil, og gjör þá miskunn á mér að minnast á mig við Faraó, svo að þú megir frelsa mig úr þessu húsi. 15Því að mér var með leynd stolið úr landi Hebrea, og eigi hefi ég heldur hér neitt það til saka unnið, að ég yrði settur í þessa dýflissu.`` 16En er yfirbakarinn sá, að ráðning hans var góð, sagði hann við Jósef: ,,Mig dreymdi líka, að ég bæri á höfðinu þrjár karfir með hveitibrauði. 17Og í efstu körfunni var alls konar sælgætisbrauð handa Faraó, og fuglarnir átu það úr körfunni á höfði mér.`` 18Þá svaraði Jósef og mælti: ,,Ráðning draumsins er þessi: Þrjár karfirnar merkja þrjá daga. 19Að þrem dögum liðnum mun Faraó hefja höfuð þitt af þér og festa þig á gálga, og fuglarnir munu eta af þér hold þitt.`` 20Og það bar til á þriðja degi, á afmælisdegi Faraós, að hann hélt öllum þjónum sínum veislu. Hóf hann þá upp höfuð yfirbyrlarans og höfuð yfirbakarans í viðurvist þjóna sinna. 21Setti hann yfirbyrlarann aftur í embætti hans, að hann mætti aftur bera Faraó bikarinn, 22en yfirbakarann lét hann hengja, eins og Jósef hafði ráðið drauminn fyrir þá. 23En eigi minntist yfirbyrlarinn Jósefs, heldur gleymdi honum.
Copyright information for Icelandic