Leviticus 6
1Drottinn talaði við Móse og sagði: 2,,Nú syndgar einhver og sýnir sviksemi gegn Drottni og þrætir við náunga sinn fyrir það, sem honum hefir verið trúað fyrir, eða honum hefir verið í hendur selt, eða hann hefir rænt, eða hann hefir haft með ofríki af náunga sínum, 3eða hann hefir fundið eitthvað, sem týnst hefir, og þrætir fyrir það, eða hann með meinsæri synjar fyrir einhvern þann verknað, er menn fremja sér til syndar, _ 4þegar hann syndgar þannig og verður sekur, þá skal hann skila því aftur, sem hann hefir rænt eða með ofríki haft af öðrum eða honum hefir verið trúað fyrir, eða hinu týnda, sem hann hefir fundið, 5eða hverju því, er hann hefir synjað fyrir með meinsæri, og skal hann bæta það fullu verði og gjalda fimmtungi meira. Skal hann greiða það eiganda á þeim degi, er hann færir sektarfórn sína. 6En í bætur Drottni til handa skal hann færa prestinum hrút gallalausan úr hjörðinni, eftir þínu mati, til sektarfórnar. 7Og presturinn skal friðþægja fyrir hann frammi fyrir Drottni, og honum mun fyrirgefið verða, _ hvað sem menn fremja sér til sektar.`` 8Drottinn talaði við Móse og sagði: 9,,Bjóð Aroni og sonum hans á þessa leið: Þessi eru ákvæðin um brennifórnina: Brennifórnin skal vera á eldstæði altarisins alla nóttina til morguns, og skal altariseldinum haldið lifandi með því. 10Og presturinn skal færa sig í línklæði sín og draga línbrækur yfir hold sitt, taka síðan burt öskuna eftir brennifórnina, er eldurinn hefir eytt á altarinu, og steypa henni niður við hlið altarisins. 11Þá skal hann færa sig úr klæðum sínum og fara í önnur klæði og bera öskuna út fyrir herbúðirnar á hreinan stað. 12Og eldinum á altarinu skal haldið lifandi með því. Hann skal eigi slokkna. Og presturinn skal á hverjum morgni leggja við að eldinum, og hann skal raða brennifórninni ofan á hann og brenna mörinn úr heillafórnunum á honum. 13Eldurinn skal sífellt brenna á altarinu og aldrei slokkna. 14Þessi eru ákvæðin um matfórnina: Synir Arons skulu fram bera hana fyrir Drottin, að altarinu. 15Og hann skal taka af því hnefafylli sína, af fínamjöli matfórnarinnar og olíunni, og alla reykelsiskvoðuna, sem er á matfórninni, og brenna á altarinu til þægilegs ilms, sem ilmhluta hennar fyrir Drottin. 16En það, sem eftir er af henni, skulu Aron og synir hans eta. Ósýrt skal það etið á helgum stað, í forgarði samfundatjaldsins skulu þeir eta það. 17Eigi má baka það með súrdeigi. Ég gef þeim það í þeirra hluta af eldfórnum mínum. Það er háheilagt, eins og syndafórnin og sektarfórnin. 18Allt karlkyn meðal Arons niðja má eta það, frá kyni til kyns ber yður það af eldfórnum Drottins um aldur og ævi. Hver sem snertir það skal vera heilagur.`` 19Drottinn talaði við Móse og sagði: 20,,Þessi er fórnargjöf Arons og sona hans, sem þeir skulu færa Drottni á smurningardegi sínum: tíundi partur úr efu af fínu mjöli í stöðuga matfórn, helmingurinn af því að morgni og helmingurinn að kveldi. 21Skal tilreiða hana á pönnu með olíu. Þú skalt fram bera hana samanhrærða. Þú skalt brjóta hana í stykki og fórna henni til þægilegs ilms fyrir Drottin. 22Og presturinn, sá af sonum hans, sem smurður er í hans stað, skal tilreiða hana. Er það ævarandi lögmál Drottins, öll skal hún brennd. 23Allar matfórnir presta skulu vera alfórnir. Þær má ekki eta.`` 24Drottinn talaði við Móse og sagði: 25,,Mæl til Arons og sona hans og seg: Þessi eru ákvæðin um syndafórnina: Á þeim stað, sem brennifórnunum er slátrað, skal syndafórninni slátrað, frammi fyrir Drottni. Hún er háheilög. 26Presturinn, sem fram ber syndafórnina, skal eta hana, á helgum stað skal hún etin, í forgarði samfundatjaldsins. 27Hver sá, er snertir kjöt hennar, skal vera heilagur. Og þegar eitthvað af blóðinu spýtist á klæðin, þá skalt þú þvo það, sem spýtst hefir á, á helgum stað. 28Og leirkerið, sem hún hefir verið soðin í, skal brjóta, en hafi hún verið soðin í eirkeri, þá skal fægja það og skola í vatni. 29Allt karlkyn meðal prestanna má eta hana. Hún er háheilög. 30En enga syndafórn má eta, hafi nokkuð af blóði hennar verið borið inn í samfundatjaldið til friðþægingar í helgidóminum, heldur skal hún brennd í eldi.
Copyright information for
Icelandic